Fæðingar í heimahúsi eða í fæðingastofu með ljósmóður eru jafn öruggar eða öruggari fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu og fæðingar á sjúkrahúsi. Nýleg íslensk rannsóknir bendir til að fyrir þennan hóp kvenna eru minni líkur á alvarlegri blæðingu, inngripum í fæðingu, rifum, keisara- og áhaldafæðingum.
Fyrir nýburann er jafn öruggt að fæðast heima í undirbúinni heimafæðingu með ljósmóður og á sjúkrahúsi. (1)
Þegar konur taka ákvörðun um fæðingarstað er öryggi þeim ofarlega í huga og þær setja öryggi barna sinna ofar öllu. Konur velja þann fæðingarstað sem þær telja öruggastan fyrir sig og börn sín og fyrir sumar konur er heimilið öruggasti staðurinn. Í hugum flestra er heimilið griðastaður þar sem fólki líður vel og þannig getur umhverfið sjálft aukið á öryggistilfinningu foreldra.
Þegar stefnt er að fæðingu með ljósmæðrum Bjarkarinnar vita foreldrar fyrirfram hvaða ljósmæður munu verða viðstaddar fæðinguna. Foreldrarnir hafa kynnst ljósmæðrunum á meðgöngunni sem gefur þeim gott tækifæri til þess að ræða væntingar sínar. Þegar samband ljósmóður og konu nær yfir meðgöngu, fæðingu og sængurlegu gefst tími til að mynda tengsl og byggja upp traust. Þetta góða samband byggt á trausti stuðlar að því að konan upplifi sig örugga í fæðingunni og það hefur jákvæð áhrif á gang fæðingarinnar.
Ljósmæður Bjarkarinnar veita samfelda þjónustu og stuðla að öryggi móður og barns:
- þær kynnast fjölskyldunni vel á meðgöngu og vinna eftir leiðbeiningum landlæknis um val á fæðingastað og sinna mæðravernd í lok meðgöngu - í fæðingunni eru tvær ljósmæður til staðar sem fylgjast með að fæðingin gangi eðlilega fyrir sig og að móður og barni líði vel - ljósmæðurnar hafa það hlutverk að styðja foreldra í fæðingu og meta þörf á flutningi ef upp koma aðstæður sem krefjast þess - eftir fæðinguna eru ljósmæður með fjölskyldunni fyrstu klukkustundirnar, fylgjast með að öllum heilsist vel og að brjóstagjöf komist vel af stað. Ljósmæðurnar sinna einnig heimaþjónustu fyrstu vikuna eftir fæðingu.
Rannsóknir og ráðleggingar
Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á heimafæðingum. Lengi vel áttum við þó ekki neinar íslenskar rannsóknir til að styðja okkur við sem nú hefur orðið breyting á. Berglind Hálfdánsdóttir doktorsnemi í ljósmóðurfræði hefur undanfarin ár unnið að rannsókn á íslenskum heimafæðingum.
Nýlega birtist grein í tímaritinu Birth sem fjallar um rannsókn Berglindar og fleiri. Rannsóknarniðurstöðurnar styðja það sem áður hefur komið fram um að heimafæðing fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu sé jafn örugg og sjúkrahús fæðing fyrir sama hóp. Meistaraverkefni Berglindar sem er á íslensku, má finna á skemman.is
Í Bretlandi voru nýverið gefnar út nýjar leiðbeiningar um barneignarþjónustu. Þar er mælt með að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu og þá sérstaklega konur sem hafa fætt áður, fæði utan hátæknisjúkrahúsa. Annað hvort heima eða á ljósmæðrareknum fæðingareiningum. Leiðbeiningar NICE 2015 má sjá hér.
Íslenskar leiðbeiningar hafa fram að þessu verið byggðar að miklu leiti á þeim bresku. Ástæðan fyrir þessum nýju áherslum er sú, að útkoma fæðinga er betri fyrir konuna og jafn góð fyrir börnin í heimafæðingum og fæðingum á ljósmæðrareknum einingum samanborið við fæðingar á hátæknisjúkrahúsum, fyrir þennan hóp kvenna.
Á vegum Landlæknisembættisins hafa verið gefnar út leiðbeiningar um val á fæðingarstað þar sem hægt er að sjá hverjar eiga kost á heimafæðingu, einnig hverjum er ráðið frá því. Fæðing utan sjúkrahúss er ekki ráðlögð ef konur eru með meðgöngusykursýki, meðgöngueitrun, langvarandi sjúkdóma, fyrirsæta fylgju, ör á legi,(t.d eftir keisaraskurð), blóðflokkamisræmi og blóðleysi. Einnig ef kona hefur reykt mikið á meðgöngunni eða neytt vímuefna. Konur sem eru mjög grannar eða eiga við offitu að stríða er ráðið frá því að fæða heima og er miðað við BMI undir 18 eða yfir 35. Heimafæðing er ekki ráðlögð ef barn er vaxtarskert, þyngd áætluð yfir 4500 gr eða ef barnið er talið vera of stórt fyrir líkamsbyggingu konunnar.
Heimildir
1) Halfdansdottir, B., Smarason, A. K., Olafsdottir, O. A., Hildingsson, I., and Sveinsdottir, H. (2015). Outcome of planned home and hospital births among low-risk women in Iceland in 2005–2009: a retrospective cohort study. Birth 42, 16-26. DOI: 10.1111/birt.12150.
2)Leiðbeiningar landlæknisembættisins um val á fæðingarstað
Comments