Í byrjun maí 2017 opnaði Fæðingastofa Bjarkarinnar í Síðumúla 10. Húsnæðið samanstendur af huggulegri fæðingastofu auk hlýlegrar setustofu með eldhúsi. Þar geta heilbrigðar konur í eðlilegri meðgöngu fætt börn sín í heimilislegu umhverfi með ljósmóður sem þær þekkja.  Útlit og umhverfi stofunnar styður við konuna og maka hennar eða stuðningsaðila í náttúrulegri fæðingu auk þess sem samfella í þjónustu ljósmóður á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu eykur öryggi móður og barns.

Hverjum stendur til boða að fæða í fæðingastofu Bjarkarinnar ?

Allar konur sem eru hraustar, í eðlilegri meðgöngu og með enga þekkta áhættuþætti.  Til þess að fæða í fæðingastofunni þarf konan/parið að hafa samband við Björkina og skrá sig í þjónustu eftir 20v. sónar.  Mælt er með að hafa samband ekki mikið seinna en við 32. viku meðgöngu en að sjálfsögðu er öllum velkomið að hafa samband hvenær sem er á meðgöngunni.  

Upplýsingablað fyrir skjólstæðinga  

Hægt er að hafa samband á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 567-9080.

Hvaða þjónustu fæ ég hjá ljósmæðrum Bjarkarinnar ?

Þegar þú hefur samband við ljósmæður Bjarkarinnar er ákveðinn tími fyrir viðtal þar sem við hittum konuna/parið þar sem við ræðum væntingar ykkar til fæðingarinnar og svörum öllum þeim spurningum sem þið hafið. Fyrir þær konur sem eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu bjóðum við upp á að taka við mæðraskoðun eftir 32 vikur.  Það gefur þér tækifæri á að kynnast ljósmóðurinni en gefur einnig ljósmóðurinni tækifæri til að kynnast þér og ykkur, fylgjast með vexti barnsins og fá tilfinningu fyrir fjölskyldunni ykkar. Þetta skiptir allt máli þegar komið er að fæðingunni sjálfri, þú upplifir meira öryggi auk þess sem við eigum auðveldara með að komast til móts við þig og þarfir ykkar.

Hvað þarf ég að borga ?

Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir þjónustu ljósmæðranna líkt og þegar um heimafæðingu er að ræða. Parið þarf að greiða aðstöðugjald líkt og á sængurkvennagangi LSH, en því verður haldið í lágmarki.

 

Sagan á bak við fæðingastofuna

Á síðustu árum hefur fæðingarstöðum á landinu verið að fækka, barnshafandi konur á landsbyggðinni þurfa þess vegna í auknum mæli að koma til Reykjavíkur til þess að fæða börn sín. Árið 1996 var fæðingarheimilinu við Eiríksgötu lokað og síðan þá hafa fæðingar farið fram á sjúkrahúsum og í heimahúsum. Árið 2014 voru Hreiðrið og fæðingadeildin á Landspítalanum sameinuð í Fæðingavaktina. Hreiðrið var ljósmóðurrekin fæðingadeild innan Landspítalans þar sem hraustar konur í eðlilegri meðgöngu gátu valið að fæða börn sín. Með lokun Hreiðursins fækkaði valkostum fæðandi kvenna enn frekar.

Það er mikilvægt fyrir konur að geta valið fæðingarstað sem mætir þörfum þeirra. Hraustar konur í eðlilegri meðgöngu sem búa á höfuðborgarsvæðinu geta í dag valið að fæða börn sín á heimilum sínum, Fæðingastofu Bjarkarinnar eða á fæðingavakt Landspítalans. Konur sem koma utan að landi hafa oft á tíðum ekki val um heimafæðingu þar sem þær eru fjarri heimilum sínum. Þeim stendur nú til boða að velja um fæðingu á Fæðingastofu Bjarkarinnar eða á fæðingarvakt Landspítalans. 

Öryggi

Fjölmargar rannsóknir benda til þess að öruggara sé fyrir hraustar konur í eðlilegri meðgöngu að fæða utan hátæknisjúkrahúss, annað hvort á heimilum sínum eða á fæðingarheimilum með aðstoð ljósmóður. Haustið 2014 voru gefnar út nýjar NICE leiðbeiningarnar um meðgöngu og fæðingarhjálp í Bretlandi, en þetta eru leiðbeiningar sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa löngum stuðst við í mótun barneignaþjónustu hér á landi. Þar er mælt með því að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu, sérstaklega þær sem áður hafa fætt barn, fæði heima hjá sér eða á fæðingaheimilum í umsjá ljósmóður frekar en á fæðingadeild á sjúkrahúsi þar sem minni líkur eru á inngripum þar.

Hagkvæmni

Fæðingaþjónusta utan sjúkrahúss sparar dýr sjúkrahúsrými og er því hagkvæm. Á Landspítalnum er nú ein stór fæðingardeild þar sem bæði áhættufæðingar og eðlilegar fæðingar fara fram. Árið 2008 voru 70.6 % allra fæðinga á landinu á Landspítalanum. Fæðingum þar hefur fjölgað undanfarin ár vegna lokunar fæðingarstaða á landsbyggðinni, árið 2015 voru það 75.4 % allra fæðinga skv. fæðingaskráningu Landspítalans.

Þegar fæðingarstöðum er lokað eru konurnar sjaldnast spurðar hvað þær vilji, heldur ráða önnur sjónarmið. Við höfum orðið varar við það í okkar starfi að konur vilja fleiri valkosti, hluti kvenna vill fæða utan sjúkrahúss en vilja þó eða geta ekki af einhverjum ástæðum fætt á heimilum sínum. Með opnun Fæðingastofunnar í Síðumúla 10 eru ljósmæður Bjarkarinnar að koma til móts við þennan hóp.

Samfelld þjónusta

Rannsóknir sýna að samfelld þjónusta ljósmóður í barneignarferlinu styttir legutíma á spítala, fækkar inngripum og bætir útkomu fæðinga auk þess sem ánægja kvenna er meiri.

Konur sem velja að fæða í fæðingastofu Bjarkarinnar fá samfellda þjónusta ljósmóður á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Konurnar verða í mæðravernd á sinni heilsugæslustöð í byrjun meðgöngu en sækja þjónustu frá ljósmæðrum Bjarkarinnar frá 32. viku meðgöngu. Konan kemur í 3-5 í mæðraskoðanir í Síðumúla 10 fram að fæðingu, fær aðstoð við fæðingu í fæðingastofunni, dvelur þar fyrstu tímana eftir fæðingu, og fær svo heimaþjónustu í sængurlegu á heimili sínu eða þar sem hún hefur aðsetur ef hún er utan af landi.

Ljósmæður vinna í pörum eða þrjár saman og sinna ákveðnum fjölda kvenna, þannig er tryggt að alltaf sé ljósmóðir sem konan þekkir með henni í fæðingu. Björkin leggur áherslu á samræmd vinnubrögð ljósmæðra sem vinna eftir bestu þekkingu hverju sinni. Björkin mun með opnun fæðingastofunnar stuðla að bættri og fjölbreyttari þjónustu fyrir barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra með þarfir þeirra að leiðarljósi.

Upplýsingar

Sími: 567-9080
Email: bjorkin@bjorkin.is

Síðumúla 10 108 Reykjavík