Aðdragandinn saga 1 edited

Ég var sett 16. Júní 2014 en ég hafði hengt mig á nokkrar dagsetningar fyrir tímann – því maður á jú að eiga fyrir tímann sem fjölbyrja – en þá átti fjölskyldan að samanstanda af 75% kvenmönnum og 25% karlmönnum (já eða manni)

2. Júní kom og fór en ég viðurkenni að það var meira óskhyggja þreyttrar konu á fyrripart meðgöngunnar en ekki alveg einlæg ósk því ég vildi jú að barnið bakaðist aðeins betur en 38 vikur. Næsta dagsetning var föstudagurinn 13. júní– þar á eftir taldi 3 ára dóttir okkar að litla systir myndi koma 17. Júní og þá líklega fljúga hingað með gasblöðrunum sem hún beið með eftirvæntingu.

Síðan var það kvenréttindadagurin 19. henni hentaði ekki að deila þeim merka degi, 20. var svo næsti óskadagur en það er dánardagur föður míns. Gleðigjafinn vildi hins vegar koma lengsta dag ársins þann 21. Júní og mikið var hún velkomin þann yndislega dag – litli sólargeislinn.

Þó svo að ýmsar dagsetningar hefðu fengið að fljúga sem óska dagar þá var ég í raun bara tilbúin vikuna áður en hún mætti á svæðið – tímann á undan og orkuna sem ég átti notaði ég í að sinna eldri stelpunni okkar og reyna að klára af alla komplexa sem ég hafði í sambandi við það að hún yrði ekki lengur einkabarn með allan heimsins tíma og athygli á sér– stóra stjarnan okkar. Þetta var góður og skemmtilegur tími hjá okkur fjölskyldunni og hefur vonandi hjálpað til við að aðlaga hana að breyttum aðstæðum. Við baukuðum ýmislegt saman allt eftir orku móðurinnar sem var æði misjöfn og hreyfanleikinn sömuleiðis.

saga 2 editedVið stefndum á heimafæðingu allt frá því að við áttum eldri stelpuna árið 2011 – en með hana sem fyrsta barn lögðum við ekki alveg í heimafæðingu ekki vitandi hvað við vorum að fara útí né hvernig ég tækist á við verkina og fæðingarferlið í heild. Eftir á að hyggja hefði eflaust gengið enn betur heima við í rólegheitum heldur en í spítala umhverfinu. Reynslan af fæðingu á  LSH var alls ekki slæm en þar sem ég komst í gegnum þá fæðingu með drippi án nokkurs verkjastillandi né glaðloftsins er ég sannfærð um að við hefðum plummað okkur flott heima.

Undirbúningurinn fól í sér að finna heimafæðingarljósmæður, við hittum Hrafnhildi og Arney og þar með var það ákveðið – þær voru þær sem við vildum hafa með okkur í þessari mögnuðu lífsreynslu sem fæðing er.

Aðrir þættir af undirbúningsins voru að ákveða hvort stóra systirin (3 ára) ætti að vera með okkur í fæðingunni. Þetta fannst okkur einna erfiðast að ákveða í ljósi þess að svo margar breytur koma þar inní– verður dagur eða nótt, verður hún mömmusjúk og þar með truflandi, eða pabbasjúk og hann missi þar með af fæðingarreynslunni eða mun jafnvel ganga illa og hún verða hrædd. Við vissum að vildum hafa sem fæsta með okkur og því ekki hafa einhvern á staðnum fyrir þá eldri og þannig var það ákveðið að hún yrði heima svo framalega og eins lengi sem öllum liði vel með það en ef þetta væri á virkum degi færi hún í leiksskólann að venju. Við vorum með fólk á bakvakt til að koma og sækja hana ef þess þyrfti.
Litla stóra stelpan okkar tók því virkan þátt í undirbúningnum, horfði á falleg heimafæðingar myndbönd til að undirbúa hana undir öndun, stunur og það hvernig barnið kemur í heiminn. Hún mynd skreytti bumbuna í dásamlegri stund og kom í mæðraskoðun með mömmu sem og var viðstödd þegar Hrafnhildur og Arney komu í mæðraskoðun eins oft og mögulegt var.saga 3 edited

Þegar leið að settum degi 16. Júní og ég orðin álíka hreyfanleg og hvalur á þurru landi fór mig að kitla í hvort ekki mætti lokka dömuna út og pantaði því nudd hjá Margréti Jónsdóttur í Heilsuhvoli en hún potaði í nokkra “komdu út punkta” þann 12. Júní. Hún sagði að þetta myndi ekki duga til að fá hana út og það var rétt hjá henni – ég fór síðan aftur til hennar 19. Júní og fann eftir þann tíma að hún myndi koma fljótlega. Fyrirvaraverkirnir urðu sterkari og fleiri. Hún sagði mér líka að hossa mér á bolta því það myndi koma henni út – ég hlýddi auðvitað og það má eiginlega segja að boltinn hafi komið henni í heiminn.

Ég varð alveg óstjórnlega þreytt eftir nuddið svaf eins og vel svefnþjálfað ungabarn þá um nóttina, vaknaði morguninn eftir og þurfti að leggja mig “smá” aftur eftir að stelpan fór á leiksskólann…frá 9 – 13. Um kvöldið var ég svo ein heima um stund og hafði það náðugt fyrir framan skjáinn ætlaði mér alls ekki að sofa meira svo ég myndi nú sofa um nóttina en gat ómögulega haldið mér vakandi svo ég svaf aftur milli 18 og 19,ég var svo auðvitað sofnuð aftur um 11 leytið eins og óléttri mér sæmir.

Undanfarnar vikur hafði ég vaknað upp með verki og eða samdrætti á næturnar og þessa nótt vaknaði ég með ögn sterkari verki og skelli mér því á boltann. Það líður hjá og ég fer aftur að sofa og vakna um morguninn ögn svekkt að þetta hafi dottið niður en samt eitthvað svo stóísk og þakklát fyrir góðan svefn.

Fæðingardagur sólargeislans

saga 4 editedÞennan Laugardagsmorgun ákvaðu Nonni og Kría að fara á kaffihús með vinafólki okkar, ég varð hins vegar heima að snurfusa eitthvað og hvíla mig þess á milli. Á milli þess sem ég gekk frá þvotti og snérist í kringum bumbuna á sjálfri mér komu samdrættir sem ég tók þó með fyrirvara. Þegar feðginin snéru heim um 12 leytið var samdráttunum farið að fjölga og ég þurfti stundum að pása og anda meðan ég talaði við stóra skottið mitt og Nonni spyr hvort þetta sé bara að fara af stað ég enn í vantrú segist ekki vera viss en það gæti vel farið svo að það komi barn í dag “Í DAG bara” kvað þá í Nonna.

Við vorum svo bara eitthvað í rólegheitum heima við og um hálf tvö var Nonni farinn að spá hver tíminn væri á milli hríða og hvort ekki væri sniðugt að láta ljósurnar vita að þetta sé að fara af stað og jú þá féllst ég á að þetta væri líklega að fara að koma og hlýddi. Ég heyrði í Hrafnhildi en tók það skýrt fram að það væri enn mislangt á milli hríða og þær missterkar svo þær þyrftu ekkert að flýta sér í bæinn en þær voru báðar staddar á fótboltamóti á Skaganum og biðu spenntar eftir fæðingu. Við ákváðum að ég myndi bara hringja aftur þegar þetta færi að harðna en þó ekki of seint þar sem þær þyrftu nú að komast í bæinn.saga 5 edited

Stóra snúllan mín var svo góð við mömmu sína, hjálpaði mér að anda og hélt í hendina á mér og gaf orkuknús –við sáum sko ekki eftir því að ákveða að hafa hana heima eins lengi og við vildum því krafturinn sem það gaf og hormónin sem það leysti úr læðingi gerði án efa mjög gott. 

Ég skelli mér í aðra sturtu dagsins (þær áttu eftir að vera svo margar að þær renna í eitt þegar ég reyni að rifja þetta upp) eftir að hringja í Hrafnhildi en þar leið mér afar vel. Þarna var orðið ljóst að ég var ekki á leið í Masters útskriftarveislu vinkonu minnar en stelpunni minni stóð þó til boða að skella sér í veisluna og leika við vinkonu sína og dóttur útskriftarnemans – við þáðum það með þökkum og þau feðginin skella sér af stað um hálf þrjú. Daman var eitthvað hálf feimin við veislugestina svo pabbinn þurfti að vera ögn með henni en svo var hann með það verkefni að fara í búð því auðvitað þurfti að versla inn, kona í fæðingu hefur gífurlega þörf fyrir að vita af miklum mat í húsi.

Hann snéri til baka uppúr 16 og sá þá að barnið ætlaði sér í alvöru út á næsta sólarhringnum – fyrst þá varð það held ég raunverulegt. Hann hófst handa við að græja laugina og spaugið var enn til staðar svo ég var ekki komin með 5 í útvíkkun ennþá ;) Milli þess að taka fyndnar myndir hossaði ég mér á boltanum og andaði.

saga 7 editedVikuna áður hafði ég beðið Nonna að kaupa bland í poka til að eiga uppí skáp en ég þoldi ekki að borða sykur síðustu vikurnar á meðgöngunni vegna fótapirrings sem versnaði svo um munar við sykurát. Verandi mikill bland í poka grís ætlaði ég sko að eiga gott bland í fæðingunni – maður finnur nú ekki fyrir fótapirring þá ;) Á þessum tímapunkti skellti ég mér á kaf í pokann!

Um hálf fimm hringi ég aftur og læt þær stöllur vita að þetta sé í alvöru að gerast og að hríðarnar séu teknar að verða sterkari og þær megi fara að halda í bæinn og þær eru komnar um hálf sex til okkar. Hrafnhildur skoðar stöðuna á litlunni þar sem hún hafði ekki enn skorðað sig áður en fæðingin fór af stað og viti menn hún var búin að pompa vel niður. Hríðarnar voru enn að harðna en voru þó enn mis sterkar og ekki alveg reglulegar en við ákváðum að þær myndu hinkra ögn og ég myndi skella mér í sturtu enn og aftur. Nonni notaði tækifærið á meðan þær voru hjá okkur til að sækja litlu stóru manneskjuna í partýið þarna uppúr klukkan 18.

Áður en þau snéru aftur kom ég úr sturtunni og bað Hrafnhildi að athuga með útvíkkun því mér fannst einhverra hluta vegna að ég þyrfti að hafa einhvern “póst” til að miða við ef það færi að ganga hægt svo bregðast mætti við tímanlega ef til kæmi. Ég var þarna komin með 6-7 í útvíkkun og var alsæl með það með ekki verri verki en raun bar vitni – gat auðveldlega andað mig í gegnum þá án mikillar fyrirhafnar enn sem komið var. Hrafnhildur notaði tækifærið og losaði aðeins um fyrst hún var þarna á annað borð.

Nonni kemur aftur með Kríu Karítas og Hrafnhildur og Arney ákveða að skreppa út og fá sér í svanginn – þær verði þó einungis í 3 mínútna fjarlægð þar sem við búum miðsvæðis svo við ættum ekki að hika við að hringja ef eitthvað er.

Ég fæ knús og djús hjá litla yndinu en djús var eitt af því fáa ásamt ælupokum sem ég var búin að hafa til fyrir fæðinguna því það var svo gott í síðustu fæðingu þar sem ég ældi ansi mikið þá. En þess má geta að ekki einn af 50 ælupokunum kom til nota þar sem flökurleikinn kom aldrei – enn eitt sem kom skemmtilega á óvart í þessari fæðingu. Dótturinni þótti hinsvegar mjög gaman að leika sér með svona GÆLUpoka og fyllti slíkan af dóti næstu daga á eftir.

           

saga 8 edited

Ég spurði Kríu hvort hún vildi vera áfram með okkur þangað til litla systir kæmi til okkar eða hvort hún vildi fara til ömmu og afa – á þessum punkti var mér alveg sama hvort hún yrði áfram eða ekki og vildi bara að hún fengi að hafa þetta eftir sínu höfði. Hún sá ömmu og afa dekur og Oreo kexið alveg í hyllingum og var ekki lengi að svara að hún vildi fara þangað – við ákveðum að við munum bara hringja þegar við viljum að þau komi að sækja hana. Hún var aldrei smeyk né truflandi fyrir mig en hefði ef hún hefði ákveðið að vera heima eflaust verið plantað fyrir framan sjónvarpið og í mesta lagi truflað pabba sinn ögn í fæðingarupplifuninni.

Ég skellti mér aftur í sturtu og var þar á meðan feðginin hita sér mjög svo lyktarsterka súpu –við vorum ekki búin að hugsa útí lykt þegar ég stakk uppá að eiga taco kjúlla súpu í frysti þegar stundin kæmi.  

Klukkan 19:45 hríðarnar orðnar ansi sterkar og ég bið Nonna að fara að láta renna í laugina en til þess þurfti að nota sturtu vatnið svo ég fer á boltann og tel mínúturnar í að ég geti farið í laugina. Á þessari stundu er ég hætt að geta mikið annað en að humma og einbeita mér þegar hríð kemur og ég bið Nonna því að hringja í foreldra sína til að koma og sækja Kríu. Hann gerir það og græjar hana tilbúna en ég heyri að hann hringir tvö símtöl og spyr hann útí hverja hann hafi verið að hringja. Hann svarar “Nú þær”, ég spyr bara “hverjar þær” “Nú ljósurnar – varstu ekki að biðja mig um að biðja þær að koma” Nei það var nú ekki það sem ég átti við –þær þurfa ekkert að koma strax það var að mínu mati langt í þetta ennþá svo hann hringir aftur til að afstýra þeim en þá heyrir Hrafnhildur ekki í símanum þar sem þær eru á leiðinni til okkar þá þegar sem var kannski eins gott.

Klukkan 20:05 

koma tengdaforeldrar mínir að sækja dömuna og hún er tilbúin niðri – Nonni græjar hana í bílinn hjá þeim. Á meðan sit ég sem fastast og humma mig í gegnum hríð en um þetta leiti er orðiðhálf óbærilegt að sitja á boltanum svo ég færi mig í hægindastólinn og held mér hálfpartinn uppi á höndunum þegar hríðin kemur. Í sama mund koma ljósin okkar labbandi inn um dyrnar og ég spyr hvað þær hafi borðað haha. Hrafnhildur sagði seinna að hún hefði séð strax á mér hversu nálægt fæðingu ég hafi verið kominþegar þær gengu inn.

saga 9 edited

Laugin var að detta í að vera tilbúin og ég staulast inná baðherbergi til að reyna að pissa áður en ég skelli mér ofaní því úr lauginni vildi ég ekki fara þegar þangað væri komið! Ég gat hinsvegar ekkert pissað og átti í mestu erfiðleikum með að labba þessi fáu skref í laugina. Þvílík sæla að komast ofaní og fá að hanga á þessum mjúku börmum! Klukkan var nákvæmlega 20:13 þegar ég fór ofaní og ég náði að slaka vel á og hreyfði líkamann til eins og mér fannst hann hreinlega segja mér að ég ætti að gera. Í sterkum hríðunum sagði ég jáááá, ég hafði lesið um eina sem gerði þetta og fannst það svo gasalega flott og fallegt og ákvað að tileinka mér þetta og fannst það svo gott þarna á þessari fallegu stundu.

Hrafnhildur hrósaði mér fyrir að hlusta vel á líkamann og sagði að þetta væri svo flott allt saman – mikið er nú gott aðheyra svona uppörvandi orð frá fagmanni.

saga 11 editedLjósurnar töluðu sín á milli að það styttist í þetta og við Nonni hristum bara hausinn – já já þetta kæmi á næstasólarhring örugglega ;)

saga 10 edited

Mér fannst ég alltaf við stjórnvölinn og ráða vel við þetta og var tilbúin í að það væru margir margir tímar eftir afsvipuðum og svo mun verri verkjum svona eftir íhlutunar fæðingu með dripi síðast. Nonni bauð þeim að fara upp og horfa á sjónvarpið ef þær vildu svo fjarri fannst okkur þetta. Fljótlega fór ég að fá smá rembings tilfinningu í hríðunum og eftir tvær slíkar hríðar man ég að ég hugsaði að ég ætlaði nú að spyrja þær hvort þetta væri nú bara í lagi en ég náði því ekki. Ég reisti mig aðeins við og þreifaði eftir höfði því þrýstingurinn var þannig en ég fann hann ekki ennþá.saga 12 editedsaga 13 edited

 

 

 

 

 


Nonni stóð upp og fór að ná sér í vatn í næstu pásu enda margir tímar eftir að okkar bestu vitund, í þann mund byrjar rosaleg hríð, vatnið fór og ég fálma eftir höndinni á honum – höfuðið kom út í þessari hríð klukkan 20:49 eða 34 mínútum eftir að ég fór ofaní laugina og 45 mínútum eftir að ljósurnar komu aftur. Við vorum held ég bæði orðlaus og í þann mund sem hún skaust út.
Hrafnhildur sá að naflastrengurinn var tvívafinn um hálsinn á píslinni svo hún bað Nonna að skella einum góðum kossi á mig til að koma næstu hríð af stað og viti menn það virkaði hríðin kom og út skaust hún klukkan 20:51 og um leið kom sólargeisli inn um gluggann sögðu þær okkur – ekki að við höfum tekið eftir því þar sem okkar sólargeisli var ofaní lauginni. Hrafnhildur lét hana taka einn kollhnís til að losa fyrri hringinn og losaði seinni hringinn um leið og skellti henni svo í gegnum klofið og í hendurnar á mér. Á meðan ég tók hana upp úr vatninu sagði ég að ég væri nú alveg til í að gera þetta aftur.

                                                

saga 14 edited

Hún fór að mjög fljótt að öskra en jafnaði sig þó fljótt og í ljós kom stóísk ung dama með fullt af þolinmæði fyrir því að finna brjóstið í rólegheitum en ég vildi vera ofaní lauginn þangað til fylgjan kæmi svo við kúrðum þarna saman. Fylgjan kom eftir 45 mínútur og þá var skilið á milli og við mæðgur fórum uppúr lauginni fljótlega þar á eftir. Við fengum svo að hafa það náðugt á meðan ljósin okkar gengu frá öllu.

saga 15 edited

Þegar stofan var orðin eins og ekkert markvert hefði rétt í þessu gerst var komið að skoðun og örlitlum saumaskap og á meðan kúrði krúttið hjá pabba sínum og beið þess að hún fengi skoðun. Barnið var svo rólegt á meðan hún var skoðuð hátt og lágt, heyrðist ekki eitt hvart við alla skoðunina, brosti meira að segja á vigtinni og hljóp eins og vindurinn í viðbragðs athuguninni.saga 16 edited

Við fengum okkur aðeins að borð/narta og síðan kvöddu vinkonurnar okkur og konan með munnræpuna átti að fara að hvílast en ég virðist fá extra skammt af orðum við það að fæða barn. Það var reyndar ágætt að ég var svoldið ör því barnið drakk 5 sinnum áður en hún fór að sofa um nóttina, strax farin að sýna kraftinn sem í henni býr með því að dúndra brjóstagjöfinni í gang!

saga 20 editedStóra systirin kom svo heim á hádegi daginn eftir þegar Hrafnhildur og Arney voru búnar að koma og kíkja á okkur. Mamman tók á móti henni með tómar hendur og opinn arm til að hún finndi að hún ætti pláss hjá mömmu ennþá en mátti ekkert vera að því að faðma mömmu heldur spurði strax hvar litla systir væri og hljóp til hennar. Þvílík ást og aðdáun –systkinaást er eitthvað það fallegasta sem til er.

Þegar ég hugsa um fæðinguna núna eftirá –og ég geri það æði oft því þetta var svo mögnuð stund – þá man ég ekki eftir að hafa á nokkrum tímapunkti fundið til sársauka. Er þetta ekki undursamlegt ferli? 

saga 18 editedsaga 19 edited

 

Upplýsingar

Sími: 567-9080
Email: bjorkin@bjorkin.is

Síðumúla 10 108 Reykjavík